Velkomin á opnun laugardaginn 23. mars kl. 18. Þá opna samtímis sýningarnar Borgarlandslag og Veðurvinnustofa. Bragðlaukarnir fá að ferðast um víðan völl þegar við skálum fyrir HönnunarMars 2019. Það sem sýningarnar eiga sameiginlegt er að hráefni hönnuðanna eru stafrænar upplýsingar sem þau umbreyta í myndrænt form.
BORGARLANDSLAG
Borgir eru mögulega magnaðasta sköpun mannsins. Þær mótast í stöðugu samspili fólks sín á milli og við umhverfið. Borgir samanstanda af sýnilegum fyrirbærum eins og mannvirkjum og landslagi, og ósýnilegum þáttum eins og upplýsingaflæði, sögu og samskiptum, svo eitthvað sé nefnt. Þó svo kort gefi ekki sanna mynd af borg, þá gefa þau vísbendingu um einhverkonar takt. Með því að sýna saman kort af höfuðborgum Evrópu og stærstu borgum í fylkjum Bandaríkjanna gefst yfirsýn sem ekki er möguleg á Google Maps eða með því að fletta í bók, ekki einu sinni með því að ferðast. Arkitektinn Paolo Gianfrancesco býður okkur upp á þessa borgarveislu. Hann notar gögn úr opnu lifandi kortakerfi sem nefnist Open Street Map. Með forritun velur hann ákveðnar upplýsingar en útilokar aðrar með það að markmiði að fanga kjarna borgarlandslagsins í gegnum flæði upplýsinga.
Á meðan á sýningunni stendur verður sex völdum borgum gert hátt undir höfði með ævintýralegum matarboðum. Þar mun úrval borgarbúa Reykjavíkur sem er af erlendu bergi brotið deila sögu sinni og fjalla um borg upprunalands síns í gegnum mat, tónlist og fleira. Á sýningartímanum verður röð fyrirlestra um listina að ferðast, þar sem sérvaldir heimshornaflakkarar munu deila frásögnum af lífsstíl sínum og stórkostlegum ferðalögum.
VEÐURVINNUSTOFA
Síbreytilegt veðurfar á Íslandi er viðfangsefni hönnuðarins og listamannsins Shu Yi sem hefur komið sér fyrir í anddyrir Hönnunarsafns með vinnuaðstöðu og mun starfa þar næstu tvo mánuði við að umbreyta veðurfarsupplýsingum í myndrænt form.
Viðburðirnir verða nánar auglýstir síðar hér á vef Hönnunarsafnsins.