Safniðáröngunnu
06.10.202317:00–19:00

OpnunLotharGrund,skráningáteikningum

Lothar Grund (1923-1995) var þýskur leiktjaldamálari sem flutti til Íslands árið 1950 og bjó hér til ársins 1963. Á Íslandi vann hann meðal annars sem leiktjaldamálari, innanhússarkitekt og við að teikna auglýsingar. Frá 1961 til 1963 vann Lothar sem innanhússarkitekt fyrir Hótel Sögu og hannaði innréttingar fyrir herbergi og sali hótelsins.  

Árið 2022 fékk Hönnunarsafn Íslands að gjöf frá fjölskyldu Lothars teikningar og gögn frá tímabilinu þegar hann vann fyrir Hótel Sögu. Eru þetta meðal annars frumteikningar af herbergjum, tillögur að sölum og auglýsingar fyrir Hótelið. Einnig fylgdu gjöfinni auglýsingateikningar fyrir hin ýmsu fyrirtæki.

Fram að áramótum mun starfsfólk Hönnunarsafns Íslands vinna við að skrá, ljósmynda og pakka niður gögnunum til langtíma varðveislu. Gestir geta fylgst með þessu mikilvæga ferli safnastarfsins og samtímis fengið innsýn inn í störf hönnuðar sem var meistaralega fær. Þau sem búa yfir frekari upplýsingum um Lothar og verk hans eru hvött til að deila þeim með okkur.

Umsjón með skráningunni hefur Bóel Hörn Ingadóttir