Málstofa
23.02.201913:00–15:00

EINARÞORSTEINN

Laugardaginn 23. febrúar nk. kl. 13–15 verður MÁLSTOFA tileinkuð arkitektinum Einari Þorsteini Ásgeirssyni í Hönnunarsafni Íslands. Á málstofunni verða fjölbreyttir fyrirlestrar um Einar sem sýna mismunandi hliðar á honum.

Trausti Valsson, prófessor og skipulagsfræðingur segir frá Einari sem vini og samstarfsmanni. Katrín Theodórsdóttir, lögfræðingur segir frá Einari sem vini. Auður og Geir Ragnarsbörn segja frá Einari sem afa. Þóra Sigurbjörnsdóttir, safnafræðingur segir frá Einari sem skráningarverkefni og Þórunn Árnadóttir, vöruhönnuður segir frá Einari sem einhverjum sem veitir innblástur.

Árið 2014 færði Einar Þorsteinn Hönnunarsafni Íslands allt innvols vinnustofu sinnar að gjöf. Um er að ræða dagbækur, módel, ljósmyndir, málverk, skissubækur, húsgögn og fleira sem tengist lífi hans og störfum, samtals um 1500 munir. Einar Þorsteinn var brautryðjandi í rúmfræðirannsóknum og sérfræðingur í margflötungum. Hann var á undan sinni samtíð hvað varðar hugmyndir um sjálfbærni, samanber kúluhúsin sem hann hannaði og voru reist um 1980. Einari er best lýst sem sannkölluðum endurreisnarmanni. Hann starfaði um langt skeið með myndlistarmanninum Ólafi Elíassyni, meðal annars við hönnun glerhjúps tónlistarhússins Hörpu.

Undanfarna mánuði hefur starfsfólk Hönnunarsafns Íslands ásamt ýmsum góðum gestum unnið í því að skrásetja þessa muni í sýningarsal safnsins. Gestir hafa getað fylgst með þegar hlutir eru teknir upp úr kössum, ljósmyndaðir, skráðir í safnmunaskrá og loks pakkað eftir kúnstarinnar reglum. Markmiðið er að hluturinn varðveitist en sé um leið aðgengilegur ásamt þeim upplýsingum sem til eru um hann.

Aðgöngumiði á safnið gildir á málstofuna.