07.06.2013–13.10.2013

ÓVÆNTKYNNI
Innreiðnútímansííslenskahönnun

Á sumarsýningu Hönnunarsafns Íslands er sjónum beint að nokkrum þáttum í komu módernismans í íslenska híbýlamenningu frá því um 1930 og fram yfir 1980. Meginuppistaða sýningarinnar er safnkostur safnsins en einnig er skyggnst inn í geymslur annarra safna og í heimahús þar sem óvænt kynni við hluti og sögur af hönnun komu oft á óvart. Slíkir fundir eiga erindi við samtímann.

Á sýningunni má líta bæði vel þekkta hönnunargripi, einkum húsgögn sem öðlast hafa sess með þjóðinni sem tímamótaverk, en einnig óvænta hluti sem greina má jafnt í verkum nafnlausra smiða sem og framsækinna húsgagna- og textílhönnuða á síðustu öld. Staldrað er við gripi sem varðað hafa veginn og minna jafnframt á að samtímahönnun bergmálar oft það sem á undan kom og að „margt kann öðru líkt að vera“.

Skoðuð eru mörk hefða og nútíma í húsgagnagerð, tilkoma nýrra efna líkt og krossviðs og krómaðs stáls, notkun járns og nýstárlegra þráða og hvernig frumherjar í húsgagnahönnun mótuðu viðinn á blómatíma húsgagna-framleiðslunnar. Vakin er athygli á merku brautryðjendastarfi íslenskra kvenna við nútíma áklæða- og teppagerð eftir 1945 og nýbreytni tauþrykksins um 25 árum síðar.

Sýningunni er ætlað að styrkja söfnunarmarkmið Hönnunarsafns Íslands á sviði húsgagna og textíla og er framlag til miðlunar á sögu hönnunar á Íslandi.

Sýningarstjórar eru Dr. Arndís S. Árnadóttir og Elísabet V. Ingvarsdóttir hönnunarfræðingur.

Verk eftirfarandi hönnuða, listamanna og fyrirtækja eru á sýningunni:
Aðalheiður Skarphéðinsdóttir (1950), Árni Jónsson (1929−1983), Ásrún Kristjándóttir (1949), Erna Ryel (1914−1974), Finnur P. Fróðason (1946), Guðmundur Benediktsson (1920− 2000), Guðrún Auðunsdóttir (1940), Guðrún Jónasdóttir (1916−1997), Guðrún Marinósdóttir (1935), Gunnar H. Guðmundsson (1922−2004), Gunnar Magnússon (1933), Halldór Hjálmarsson (1927−2010 ), Helgi Hallgrímsson (1911−2005) , Hjalti Geir Kristjánsson (1926), Jóhanna Vigdís Þórðardóttir (1946), Jón Benediktsson (1916− 2003), Jón Ólafsson (1938), Jónas Sólmundsson (1905−1983), Karólína Guðmundsdóttir (1897-1981), Ólafur B. Ólafs (1908─1945), Pétur B. Lúthersson (1936), Ragna Róbertsdóttir (1945), Skarphéðinn Jóhannsson (1914−1970), Stefán Snæbjörnsson (1937), Steinunn Bergsteinsdóttir (1949) , Sveinn Kjarval (1919−1981), Þorbjörg Þórðardóttir (1949), Þorkell G. Guðmundsson (1934), Funi hf., Glit hf., Valbjörk hf. / Jóhann Ingimarsson, Nói (1926), Stálhúsgögn hf. / Gunnar Jónasson (1907─2002)

Sýningin verður opnuð föstudaginn 7. júní kl. 17.