Pallurinn
08.11.2024–29.12.2024

Heimilistextíll

Textíll er mikilvægur hluti af heimilinu og gegnir margvíslegum hlutverkum til dæmis sem áklæði, dúkar, teppi, servíettur, viskastykki og rúmföt. Þær Guðrún Kolbeins, Bethina Elverdam Nielsen og Brynhildur Þórðardóttir hafa allar einbeitt sér að vönduðum textíl fyrir heimilið. Verk þeirra snúast um hversdagslegar athafnir eins og að þurrka hendurnar, leggjast undir teppi, halla höfði, þurrka leirtau og leggja á borð. Verkin bera með sér tíma og alúð og gera hversdaginn vandaðri og fegurri.

Verk Guðrúnar eru handofin, aðallega úr bómull og hör en einnig silki. Benthina sýnir handofin verk sem og verk unnin í jacquard vél. Brynhildur hannar vöru til framleiðslu úr mismunandi efnum fyrir Lúka Art & Design.

Guðrún Kolbeins útskrifaðist úr textíldeild Myndlista og handíðaskóla Íslands árið 1985. Hún útskrifaðist með kennararéttindi og starfaði sem textílkennari í grunn- og framhaldsskóla í um 20 ár. Einnig hefur hún kennt vefnað í Heimiliðnaðarskóla Íslands. Árið 2024 gaf Guðrún út uppskriftabók í vefnaði sem ber heitið Fjölbreytt munstruð einskefta.

Bethina Elverdam Nielsen er er fædd í Danmörku og flutti til Íslands árið 2008. Hún útskrifaðist úr fatahönnunardeild Listaháskóla Íslands árið 2013 og lauk í framhaldinu tveggja ára námi í textílhönnun við Myndlistaskólann í Reykjavík. Í verkum sínum gerir hún tilraunir með að flétta saman hefðbundnum aðferðum og rótgrónu handverki við nýja tækni og skapandi hugsun. Í vinnu sinni á vefstólnum upplifir hún hvert verk sem persónulegt ferðalag.

Brynhildur Þórðardóttir útskrifaðist úr textíl- og fatahönnunardeild Listaháskóla Íslands árið 2004. Eftir útskrift stofnaði hún fylgihlutamerkið Brynhildur og árið 2009 stofnaði hún Lúka Art & Design sem hannaði fatnað og fylgihluti en þróaðist yfir í heimilistextíl.  Lúka heimilistextíllinn hefur verið til sölu í Japan, Bretlandi, Írlandi, Danmörku og á Íslandi. Hann einkennist af litríkum stílhreinum formheimi. Nafngift hlutanna kemur úr heimi náttúruvísinda og íslenskri náttúru sem er gjarnan  uppsprettan af innblæstri Brynhildar.