22.10.2025–30.10.2025

Draumaþorp

Á sýningunni má sjá verk eftir nemendur í 4. bekk allra grunnskóla í Garðabæ.

Draumaþorpið er fræðsluverkefni tengt yfirstandandi skráningu á verkum Einars Þorsteins Ásgeirssonar arkitekts og hönnuðar í Safninu á Röngunni. Í skólaheimsóknum var nemendum boðið að ganga inn í töfrandi heim þessa tilraunaglaða frumkvöðuls. Þau kynntust hvernig hann helgaði líf sitt stærðfræðilegum rannsóknum sem gátu meðal annars af sér nýtt form; gullinfang, sem var notuð í glerhjúpinn í Hörpu.

Að lokinni leiðsögn og fræðslu tóku nemendur þátt í skapandi smiðjum með ÞYKJÓ hönnunarteyminu þar sem þau ímynduðu sér að þau væru arkitektar á stofu sem fengu úthlutaða lóð og sameiginlegt verkefni fyrir reitinn. Hér reis tónlistarhúsið Hip Hop, torg með gosbrunnum og klukkuturni, yfirbyggt hátíðarsvæði fyrir 17. júní, fjölbýlishús sem er bara fyrir stelpur – og gæludýr á þakinu -, trúarhús af ýmsum stærðum og gerðum og leikvellir.

Sýningin verður opin til og með 30. október í Smiðjunni, fræðslurými Hönnunarsafnsins á 2. hæð. Þar er einnig hægt að spreyta sig á rúmfræðiþrautum og glugga í bækur og tímarit safnsins.

Ljósmyndir: Sigga Ella

Leiðbeinendur og sýningarstjórar: Sigríður Sunna Reynisdóttir og Ninna Þórarinsdóttir hjá ÞYKJÓ

Leiðsagnir og fræðsla: Jóhanna Ásgeirsdóttir

Fagleg ráðgjöf og aðstoð við sýningarhönnun: Amelie Scheepers

Grafísk hönnun og uppsetning: Studio Studio