Sýning
19.11.2016–05.03.2017

ÁPAPPÍR
Skissurogteikningarhönnuðaogmyndlistarmanna

Laugardaginn 19. nóvember verður opnuð sýning á úrvali teikninga og skissa úr safneign safnsins og úr einkasöfnum. Verkin á sýningunni gefa mynd af vinnubrögðum hönnuða og myndlistarmanna við gerð umbúða, auglýsinga, bókakápa og húsgagna- og  innanhússhönnunar allt frá þriðja áratug síðustu aldar fram á þann sjöunda.

Sýnd eru verk eftir Jónas Sólmundsson (1905-1983), Jón Kristinsson eða Jónda  (1925-2009), Kristínu Þorkelsdóttur (1936), Lothar Grund (1923-1995), Stefán Jónsson (1913-1989) og Sverri Haraldsson (1930-1985).

 

Jón Kristinsson bóndi og listamaður, betur þekktur sem Jóndi í Lambey, vann um árabil að auglýsingateiknun fyrir Rafskinnu eða allt frá 1941 þegar hann tók við keflinu af Tryggva Magnússyni teiknara, til ársins 1957 þegar Rafskinna hætti. Á sýningunni eru nokkrar auglýsingar sem Jóndi teiknaði fyrir dagblaðið Vísi um árabil og eru í safneign safnsins.

Jónas Sólmundsson er einn frumherja íslenskra húsgagnaarkitekta. Eftir að hafa lokið sveinsprófi í húsgagnasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1926 hélt hann til frekara náms til Þýskalands. Á sýningunni má sjá teikningar og vatnslitamyndir frá skólaárum Jónasar í Þýskalandi. Stíll þeirra húsgagna sem Jónas teiknar á námsárunum í Þýskalandi sýnir tímabilið þegar módernisminn er að ryðja sér til rúms í húsgagnagerðinni.

Kristín Þorkelsdóttir er einn af frumkvöðlum grafískrar hönnunar á Íslandi og hefur verið afkastamikil allan sinn starfsferil og unnið við flestar gerðir grafískrar hönnunar. Snemma á 7. áratug síðustu aldar voru bíóauglýsingar handunnar eins og þær klippimyndir sem Kristín afhenti Hönnunarsafninu til varðveislu og eru til sýnis. Kristín var svo til eini auglýsingateiknarinn sem notfærði sér þennan litmiðil á þessum árum.

Lothar Grund leiktjaldamálari, innanhússarkitekt og listmálari fæddist í Schwerin í Þýskalandi. Eftir því sem árin hafa liðið hefur nafni Lothars lítið verið haldið á lofti fyrir það sem enn má sjá og skoða eftir hann í umhverfi okkar, sem eru hluti innviða á Hótel Sögu, ýmsir barir hússins og vegg- og loftskreytingar. Eins teiknaði hann auglýsingar, til dæmis fyrir Stálhúsgögn hf, Loftleiðir og hannaði breytingar fyrir Sjálfstæðishúsið og Leikhúskjallarann en dæmi um þessi verkefni Lothars verða til sýnis.

Stefán Jónsson auglýsingateiknari og arkitekt var einn af frumkvöðlum okkar í auglýsingateikningu. Hann var afkastamikill auglýsingateiknari á árunum 1937-1956, teiknaði mikið af auglýsingum, merkimiðum og veggspjöldum og síðast en ekki síst fjölda frímerkja. Stefán bjó yfir fjölbreyttum stíltökum sem hann notaði eftir því hvert verkefnið var. Á sýningunni má bæði sjá beinskeytt myndmál til áróðurs og  rómantískan stíl til að efla þjóðerniskennd og samstöðu.

Sverrir Haraldsson listmálari er vel þekktur fyrir myndlist sína. Á tveggja ára tímabili, um miðjan sjötta áratug síðustu aldar, vann hann hinsvegar lítið sem ekkert að málverkinu en var einungis í hönnunartengdum verkefnum. Lítið hefur farið fyrir þessum þætti í umfjöllun um feril Sverris en á sýningunni getur að líta bókakápur, litatillögur fyrir bíla og umbúðahönnun sem öll eru unnin í abstrakt stíl. Fjölskylda Sverris afhenti nýlega Hönnunarsafninu stóra gjöf með þessum verkum og verða nokkur þeirra til sýnis.