Gunnar Magnússon er meðal afkastamestu og frumlegustu húsgagnahönnuða og innanhúss
Strax á námsárunum í Kaupmannahöfn, í byrjun sjöunda áratugarins, kom sérstakur formheimur hans í ljós. Þegar aðrir voru að teikna og smíða hluti með mjúkum, lífrænum línum í anda Finns Juhl og Hans Wegner kom Gunnar fram með beinar, (klárar) línur og geómetrísk form. Hann var vinnusamur og meðfram náminu sendi hann inn teikningar í samkeppnir og á sýningar. Þegar hinn ungi Íslendingur vann til verðlauna á hverri sýningunni á fætur annarri fór ekki hjá því að hann vekti athygli gagnrýnenda og framleiðenda og tilboðin streymdu til hans. Það má helst tengja formheim Gunnars við danska hönnuðinn Børge Mogensen, en hlutir Gunnars eru enn afdráttarlausari og einfaldari.
Þrátt fyrir velgengnina í Danmörku kaus Gunnar að flytja heim með fjölskyldu sína að námi loknu. Hann var fæddur og uppalinn á Ólafsfirði og sá staður átti sterkari ítök í honum en höfuðborgin Reykjavík. Vegalausa snjókistan, þröngi fjörðurinn umkringdur standbjörgum og skapfast fólkið. Þetta volduga umhverfi markaði varanleg spor í lunderni hins unga manns og til þess má rekja form og lausnir allt hans líf. En það var ekki hægt að gerast húsgagnahönnuður á Ólafsfirði á þessum árum og haustið 1963 settust Gunnar og Hrönn kona hans, að í Reykjavík þar sem hann opnaði teiknistofu sína. Miðað við Kaupmannahöfn ríkti þar fásinni, en talsverð gróska var þó í húsgagnaframleiðslu og menn eins og Magnús Jóhannsson í Skeifunni og Þorvaldur Guðmundsson á Hótel Holti reyndust honum vel. Gunnar hannaði fyrir fjölmörg framleiðslufyrirtæki, stór og smá, og eru þeir hlutir vandaðir og vel frágengnir.
Eftir inngöngu Íslands í EFTA bandalagið árið 1970 voru innflutningshöft afnumin. Íslenskur húsgagnaiðnaður var ekki í stakk búinn til að verjast erlendri samkeppni og hin blómlega iðngrein leið nokkurn veginn undir lok. Gunnar teiknaði húsgögn til framleiðslu fram á áttunda áratuginn, en síðan starfaði hann einkum að innréttingum fyrirtækja og banka. Þar fór hann heldur ekki troðnar slóðir heldur tók þátt í að umbylta skipulagi þeirra og innleiða hér á landi breytta starfs- og afgreiðsluhætti.
Hönnun Gunnars ber vott faglegri kunnáttu hans, öguðum vinnubrögðum, skilningi og virðingu fyrir efnivið og góðu handbragði. Alþjóðleg fágun, nútímaleg og frumleg formhugsun í bland við tilfinningu fyrir þjóðlegri arfleifð skipa honum á bekk frumkvöðla og framámanna íslenskrar sköpunar.
Á sýningu safnsins eru um fjörutíu húsgögn eftir Gunnar sem voru teiknuð fyrir heimili á árunum 1961 til 1978 og voru framleidd. Að auki er skákborðið fræga til sýnis.
Ásdís Ólafsdóttir