Undanfarnar vikur hafa Hulda Kristín Hauksdóttir og Kristrún Rut H. Antonsdóttir nemendur í fatahönnun við LHÍ verið með vinnuaðstöðu í Smiðjunni á Hönnunarsafninu þar sem þær vinna í verkefni um handprjón á Íslandi með styrk úr Nýsköpunarsjóð námsmanna hjá Rannís. Rannsóknin er byrjunarpunktur á stærra rannsóknarverkefni sem Ragna Sigríður Bjarnadóttir, fagstjóri í fatahönnun við Listaháskóla Íslands, stendur fyrir.
Í Hönnunarsafninu hafa Hulda og Kristrún unnið fræðilega vinnu, prjónað prufur, prófað nýjar aðferðir, tekið viðtöl og unnið skapandi með handprjónshefðina. Þær verða með afrakstur sinn til sýnis ásamt því að hægt er að koma, spjalla, fá sér kaffi og prófa að prjóna eitthvað nýtt!